pétur.annáll.is

AnnállDagbókGreinarKennslaLeikhús og kvikmyndirMyndlistPílagrímarPredikanirRannsóknir

« Doktorsvörn Kjartans Jónssonar · Heim · Deilan um Þyrna Þorsteins Erlingssonar: Guðmundur Hannesson læknir gegn guðfræðingunum Jóni Helgasyni og Haraldi Níelssyni »

Bikar lífsins! Gunnlaðar saga eftir Svövu Jakobsdóttur í Hafnarfjarðarleikhússinu

Pétur @ 21.37 22/11/06

Nútímamaðurinn heldur stundum að hann lifi í heimi sem tekinn hefur verið úr sambandi við goðsagnir og frumtákn trúarbragðanna. En staðreynd er, hvort sem við viðurkennum það eða ekki, að hugsun okkar og tilfinningar sækja stöðugt efnivið í þann viskubrunn sem þar er að finna. Ef við lokum á flæðið úr honum missum við af framtíðinni – hún er vonlaus.

Sviðsetning Hafnarfjarðarleikhússins á skáldsögunni um gyðjuna Gunnlöðu eftir Svövu Jakobsdóttur sýnir þetta einkar vel. Táknheimur sögunnar býður upp á myndræna túlkun og höfundur leikgerðarinnar, Sigurbjörg Þrastardóttir, nýtir vel þá möguleika. Sagan gerist á ólíkum sviðum og mismunandi tímum samtímis, forsögulegum og nútímalegum og í takmörkuðuðu sviðsrýminu er þetta er fléttað saman á frumlegan og djarfan hátt. Á stundum verður það að vísu nokkuð ofhlaðið, en góður leikur og samvinna leikarana undir öruggri leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur gerir það að verkum að texti, leiktjöld og sviðsmunir mynda spennandi og trúverðuga heild. Sviðið er á sama gólfi og sæti áhorfenda og það gerir nándina meiri og höfðar til athygli leikhúsgesta.

Meginþeima verksins er sótt í Eddukvæði, Hávamál og Völuspá, þar sem segir frá gyðjum, jötnum og ásum. Höfuðpersónan er gyðjan Gunnlöð sem segir frá í Hávamálum að gætti skáldskaparmjaðarins sem Óðinn sóttist eftir og náði til sín með vélabrögðum. Hann dregur gyðjuna á tálar og dvelur hjá henni þrjár nætur áður og hann fær að dreypa á miðinum góða. Í Hávamálum segir:

Gunnlöð mér gaf
gullnum stóli á
drykk ins dýra mjaðar.
Ill iðgjöld
lét eg hana eftir hafa
síns ins heila hugar,
síns ins svára sefa.

Ekki var hæverskunni fyrir að fara hjá Óðni og hann kann sér ekki hóf og tæmir kerin þrjú, smeygir sér svo í arnarham og fýgur með feng sinn áleiðis í Ásgarð þar sem hann spýtir út úr sér sér ránsfeng sínum.

Goðsögulegt efni sem Svava notar tekur hún sjálfstæðum tökum og byggir þar á eigin athugum. Útlistanir Snorra-Eddu endurskoðar hún og styðst þar við nútímalegar rannsónir og kenningar um mikilvægi gyðjunnar á forsögulegum tíma. Hún kynnti þessar merki athuganir sínar í sérstakri grein í Skírni, tímariti hins íslenska bókmenntafélags árið 1988 þar sem hún styðst við kenningar um keltneskar goðsögur sem segja frá gyðju landsins sem vígir konunginn. Sköpunarkraftur náttúrunnar er frumafl lífsins og hið karllæga framkvæmdarvald er honum háð. Svava bendir á að það hlýtur að vera Gunnlöð sem situr í gullna hásætinu við vígsluathöfnina, en ekki Óðinn eins og Snorri Sturluson og aðrir bókmenntafræðingar eftir hann hafa talið sjálfsagt. Þegar grant er skoðað hlýtur þetta að vera rétt bæði samkvæmt málfarslegum rökum og svo auðvitað vegna þess að það var Óðinn sem hafði eitthvað að sækja til gyðjunnar en ekki öfugt.

Gyðjan sem persónugervingur landsins og náttúrunnar minnir á vissan hátt á fjallkonuna okkar þótt sú síðarnefnda hafi verið löguð og lagfærð af upplýsingarmönnum til skrauts á þjóðhátíðum. Þá tranar framkvæmdavaldið sér fram og gyðjan kemur fram sem dauf skuggamynd svipt sínum upprunalega ógnarkrafti.

En aftur í goðsögulegan og upprunalegan tíma. Gunnlöð vökvar lífstréð með lifandi vatni úr brunninum. Í umsjá hennar er lykillinn að velferð mannlífsins og hann er fólginn í hinu heilaga keri, bikarnum gullna og innihaldi hans, sem er ævafornt tákn sem skýtur upp kollinum víða í goðsögum og ævintýrum sem segja frá baráttunni um varðveislu sannleikans um lífið og tilveruna. Konugurinn sækir visku sína og vald til gyðjunnar því án hennar er hann kraftlaus. Það er ekki fyrr en eftir vígsluathöfnina að hann er þess umkominn að storka henni og setja sig yfir hana.

Vígslan felur í sér hlutdeild í hinum heilaga miði og samruna við kvennlegan sköpunarkraft, frumafl tilverunnar, sem fæðir af sér lífið, nærir það og verndar. Um þetta fjallar verkið hvorki meira né minna: forsendur lífsins á jörðinni. Óðinn svíkur sáttmálann, vanhelgar sakramentið, með því að nota kraftinn til að smíða vopn úr járni og það eru þessi svik sem ógna náttúrunni og mannfélaginu. Til þessa óhæfuverks má rekja harmsögu mannlegrar viðleitni að drottna og græða á kostnað náttúrunnar – syndin er komin í spilið, það er nauðgað, eytt og drepið. Bræður munu berjast og að bönum verða segir völvan – heimurinn hrynur. Leiða má að því getum að spákonan í Völuspá, sem Óðinn, vegna sjúklegrar forvitni sinnar og etv. sektarkenndar, manar til að segja sannleikann um framtíðina, sé Gunnlöð sjálf. Hún áminnir konunginn og sýnir honum fram á afleiðingar eiðrofssins. Lífsvon mannkynsins felst í því að frelsa hinn heilaga kaleik úr fjötrum hins spillta heims.

Saga Svövu er lagskipt og á yfirborðinu fjallar hún um fína frú sem fer frá fjölskyldufyrirtækinu heima á Íslandi til að vitja um dóttur sína, Dís, í Kaupmannahöfn, sem lent hefur í fangelsi fyrir að stela gullkeri, dýrgrip miklum, úr þjóðminjasafninu þar í borg. En hún hefur ekki stolið kaleiknum, heldur endurheimt hann og gengið inn í þann veruleika sem hann á heima í. Kerfið hefur ekki önnur ráð en þau að dæma hana fyrir glæpsamlegt athæfi eða úrskurða hana geðveika og það er síðari kosturinn sem valin er í samráði við móðurina. Dís er að leita að sjálfri sér og móðirin er þar með að missa af henni. Dís finnur Gunnlöðu og hið heilaga ker er ták þess að hún hefur komið til sjálfra sín og fundið sannleikann um leið. Þetta er segin saga sem allir foreldrar kannast við, sársaukafullt ferli sem enginn getur reiknað út fyrirfram. Pabbi hennar hefur fengið sig fullsaddan af vandræðaganginum og eignast ekki hlutdeild í hinum magnaða veruleika kersins sem skýrskotar til þess sem átt er við með hugtakinu sakramenti. Hann er heima og sér um að halda fyrirtækinu gangandi en móðir Dísar fjarlægist eiginmann sig og fjölskyldufyrirtækið heldur í fótspor dóttur sinnar á vit goðsögunnar.

Og nú eru þær á leið heim í flugvél móðir og dóttir með læknisvottorð um geðveiki Dísar í fylgd tveggja varða – jötna. En frúin hefur endurfæðst um og hún hefur sjálf endurheimt hið heilaga ker sem hún hefur með sér til Íslands í handtöskunni sinni. Hún veit að hún verður handtekinn við komuna heim til en er ákveðin í því að þykjast ekki vera geðveik. Hún hefur bjargað skáldskapnum og á ströndinni hinum megin, sem „rís eins og í eldi úr brjósti fangans“, eru þau tvö saman Askur og Embla á nýjan leik – og hinn ríki kemur öflugur ofan, sá er öllu ræður, eða hvað?

Manneskjan er stöðugt að endurheimta sjálfa sig – losa sig úr álögum með því að leita út fyrir sjálfa sig. Goðsagnir eru ótæmandi viskubrunnur mannlegrar reynslu og þær bjóða upp á margbreytilega túlkun – nýjar sögur verða til sem segja sígildan sannleika um lífið og tilveruna. Við uppgötvum að okkar saga er inn í annarri og meiri sögu. Gunnlaðar saga er þannig saga og hér hefur aðeins verið tæpt á nokkrum kennileitum.

Höfundur er prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands.

url: http://petur.annall.is/2006-11-22/21.37.05/

© pétur.annáll.is · Færslur · Ummæli